Landsliðsfyrirliði Íslands, Aron Einar Gunnarsson, var í byrjunarliði Cardiff sem vann 2-1 sigur á spænska liðinu Athletic Bilbao í æfingaleik í dag.
Aron Einar spilaði 67 mínútur fyrir nýliðana í ensku úrvalsdeildinni. Peter Whittingham og Frazier Campbell skoruðu mörkin fyrir heimamenn.
Aron Einar fór úr axlarlið í landsleik Íslands gegn Slóveníu í byrjun júní og hefur verið að jafna sig á meiðslunum í sumar. Miðjumaðurinn hefur verið í kapphlaupi við tímann að verða heill fyrir 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.
Aron Einar sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir tveimur vikum að hann væri á áætlun. Hann stefndi á endurkomu þegar enska úrvalsdeildin hæfist en mestu máli skipti að flýta sér hægt.
Aron Einar var ekki valinn í íslenska landsliðið sem mætir Færeyingum í æfingaleik á miðvikudaginn vegna meiðsla sinna.
