Innlent

Enn og aftur milljón tonna makrílmæling

Svavar Hávarðsson skrifar
Í Neskaupstað er sífellt rennerí af skipum sem koma til að landa makríl eða lesta afurðir til útflutnings.
Í Neskaupstað er sífellt rennerí af skipum sem koma til að landa makríl eða lesta afurðir til útflutnings. Mynd/Kristín Svanhvít Hávarðsdóttir
Makríll innan íslenskrar lögsögu mælist vel yfir milljón tonn þriðja árið í röð. Þrátt fyrir að nokkru minna mælist af makríl í sumar en á sama tíma í fyrra er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða, að sögn fiskifræðings. Mælingin styrkir samningsstöðu Íslands, er mat aðalsamningamanns Íslands í makríldeilunni við Evrópusambandið og Noreg.

Þetta er meðal niðurstaðna 29 daga rannsóknarleiðangurs Hafrannsóknastofnunar á útbreiðslu og magni makríls í íslenskri og grænlenskri lögsögu. Þetta er fjórða árið sem sameiginleg rannsókn Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á magni og umhverfisaðstæðum er framkvæmd.

Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, var leiðangursstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. „Það er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða á makrílgengd við Ísland, þó að nokkru minna mælist núna en í fyrra. Þetta hefur ekki verið reiknað upp á tonn en ljóst að meira er af makríl en árin 2010 og 2011. Því er vel yfir milljón tonn innan lögsögunnar,“ segir Sveinn. Árið 2011 mældust ríflega milljón tonn innan íslenskrar landhelgi, en í fyrra 1,5 milljón tonn.

Sveinn segir greinilegt að yfirborðssjórinn er mun kaldari í sumar en fyrri ár. Það skýri að hluta aðra dreifingu makrílsins núna en var í fyrra. Sveinn bætir við að markvert sé að töluvert magn af makríl mælist innan grænlensku lögsögunnar og það þurfi að rannsaka mun betur en nú var gert.

Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands í makríldeilunni í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, telur engan vafa leika á því að niðurstöður rannsóknarinnar núna styrki samningsstöðu Íslands enn frekar – og að hún styrkist í raun ár frá ári með mælingum upp á rúmlega milljón tonn. „Þetta er mjög góð mæling og ekki hægt að segja annað en að hún staðfesti þessar gríðarlega miklu makrílgöngur í okkar lögsögu.“

Næsti samningafundur í makríldeilunni verður í Reykjavík 7.-8. september. Það er fyrsti fundur samninganefnda strandríkjanna frá því í október í fyrra.



Stóri makríllinn lætur ekki sjá sig
Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri og útgerðarmaður á Huginn VE 55Mynd/Óskar Friðriksson
„Það er miklu þyngra að ná makrílnum núna en í fyrrasumar og það er minna af stórum makríl,“ segir Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri og útgerðarmaður á Hugin VE 55 frá Vestmannaeyjum. Hann staðfestir niðurstöður rannsókna um að makríllinn sé dreifðari en hann var á undangengnum vertíðum. Hins vegar séu fregnir um mikinn meðafla, og þá af norsk-íslenskri síld, orðum auknar. Vandalaust sé að haga veiðum þannig að hreinn makríll fáist.

Guðmundur hefur aðallega verið að makrílveiðum sunnan- og vestanlands. Af 8.800 tonna kvóta skipsins eru ríflega þrjú þúsund tonn enn óveidd. „Það gæti orðið erfitt að ná restinni þó það sé ómögulegt um það að segja hvort menn brenni inni með einhvern kvóta. Það er ágætis veiði núna,“ segir Guðmundur, sem bætir við að vertíðin hafi hafist nokkru seinna en fyrri ár og veður hafi ekki verið að hjálpa mönnum neitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×