Innlent

Framkvæmdir vegna Álftanesvegar hafnar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Fyrirhuguð lagning vegarins um Gálgahraun hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og í byrjun sumars stefndu Landvernd, Náttúruverndarsamtök Ísland, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir Vegamálastjóra fyrir hönd Vegagerðarinnar, til viðurkenningar á því að vegurinn væri ólögmætur. 5. júlí síðastliðinn var þó skrifað undir samning við verktaka og sagði upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í samtali við fréttastofu í dag, að aldrei hefði staðið til að bíða eftir niðurstöðu vegna þessa síðasta kærumáls enda hefði fyrirhugaður vegur farið margsinnis áður í gegnum kæruferli.

„Þetta eru auðvitað skelfilegar fréttir fyrir okkur sem höfum barist fyrir því árum saman að koma í veg fyrir rask á því hrauni sem eftir er á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Reynir Ingibjartsson, formaður Hraunavina. Þeir að framkvæmdir hefjist á meðan kæran sé enn í kerfinu. „Við teljum að útboðið á þessum vegi sé ólöglegt. Öll leyfi fyrir þessu eru runnin úr gildi; framkvæmdaleyfi, umhverfismat o.s.frv þannig að verkið sem slíkt er bara ólöglegt,“ segir Reynir.

Gert er ráð fyrir 1,1 milljarði á fjárlögum til vegarins en Reynir segir að lagt hafi verið til í gær, við hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar, að spara þessa upphæð með því að hætta við veginn. Hann segir óvíst hvort farið verði í róttækar mótmælaaðgerðir en að náttúruverndarsinnar ráði nú ráðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×