Innlent

Fær hjálp við flutninga frá bestu viðskiptavinum í heimi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Gísli kveður Hverfisgötuna í dag.
Gísli kveður Hverfisgötuna í dag. mynd/anton
„Það er alveg hrúga hérna að hjálpa,“ segir Gísli Einarsson, kenndur við Nexus, en þessi vinsæla sérvöruverslun flytur í nýtt húsnæði við Nóatún í dag. Gísli bað viðskiptavini verslunarinnar um hjálp við flutningana til að þeir tækju sem stystan tíma.

Verslunin hefur verið til húsa á Hverfisgötu undanfarin 18 ár, en hún sérhæfir sig í myndasögum, bíómyndum, spilum og ýmsu öðru sem sumir kenna við nörda.

„Þetta eru allt í allt á milli 40 og 50 manns sem eru að hjálpa,“ segir Gísli, en hann man ekki eftir að verslun hér á landi hafi fengið viðskiptavini sína til að hjálpa við flutninga.

„En þetta lá beint við þegar við sáum hvað þetta var mikið mál. Til að hafa ekki lokað í marga daga, að sjá frekar hvort einhverjir væru til í að hjálpa okkur að rumpa þessu bara af.“

Að sögn Gísla er ekki bara um kassaburð að ræða heldur þarf líka að pakka ofan í kassa, rífa niður hillur og fleira. Í staðinn uppskera hjálparhellurnar þakklæti, glænýja Nexusverslun, og mat og drykk á meðan flutningunum stendur.

„Svo á ég von á fullt af fólki í dag,“ segir Gísli, sem ætlar að reyna að opna nýju verslunina klukkan 11:30 á morgun.

„Ég er auðvitað mjög bjartsýnn maður, en með svona mikilli hjálp þá held ég nú að við náum því alveg. Við erum með alveg nóg af fólki, það er ekki vandamál núna, enda vissum við það að þetta eru bestu viðskiptavinir í heimi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×