Innlent

"Reyndir menn halda spilunum þétt að sér og treysta engum"

Í nýrri skýrslu sem greiningardeild Ríkislögreglustjóra gaf út í dag kemur fram að miklar breytingar hafi orðið á fíkniefnamarkaðnum hér á landi síðustu ár.

Þar segir að á árunum fyrir hrun hafi verið veruleg eftirspurn eftir dýrari fíkniefnum á borð við kókaín. Verðið var þá sem áður hátt en áhætta var talin ásættanleg að því marki að auðvelt var að koma efnunum í verð, þynna þau út og þar með ná fram miklum hagnaði.

Greiningardeildin segir að kókaíni sé enn smyglað inn í landið en innflutningurinn hafi minnkað í takt við breytta eftirspurn sem er fyrst og fremst komin til vegna þess að neytendur hafa minna á milli handanna.

Þá segir í skýrslunni að eftir hrunið hafi haft veruleg áhrif á fíkniefnamarkaðinn. Til dæmis sé allt kannabis, sem neytt er hér á landi, ræktað hér á landi.

Nokkrir aðilar standa að umtalsverðri kannabis-framleiðslu hér á landi og hafa náð góðum tökum á henni.

„Þessir menn fá oftar en ekki aðra til að sinna ræktuninni og hafa af henni verulegar tekjur ef marka má tiltækar upplýsinga. (...) Reyndir menn á þessu sviði halda spilum þétt að sér og treysti í raun engum. Þannig leggja heildsalar áherslu á að koma sér upp fáum en traustum viðskiptavinum neðar í keðjunni,“ segir í skýrslunni.

Eftirspurn eftir kannabisi hefur farið vaxandi hér á landi á síðustu árum. Í skýrslunni segir að ljóst sé að „tískusveiflur“ gangi yfir á þessum markaði eins og öðrum.



Skýrsluna má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×