Innlent

Engir viðvaningar í Árbæjarsafni í dag

Jóhannes Stefánsson skrifar
Menn og dýr hjálpuðust að við heyskapinn í Árbæjarsafni í dag en slátturinn fór fram með gömlu aðferðinni. Engar vélar voru á svæðinu, heldur var slegið með með orfi og ljá.

Það voru þó hæg heimatökin á Árbæjarsafni þar sem að heyskapurinn hófst í morgun. Menn og dýr hjálpuðust að við að undirbúa veturinn.

„Já nú er okkar árlegi heyannadagur. Við höfum fengið góðvini safnsins til að hjálpa okkur. Hér koma sömu andlitin ár eftir ár og taka þátt," segir Sigurlaugur Ingólfsson, safnvörður á Árbæjarsafni.

Það voru heldur engir viðvaningar sem sáu um sláttinn. Aðspurður hvernig heyskapurinn gengi sagði Guðmundur Ásmundarson, sláttumaður: „Hann gengur bara ljómandi vel sýnist mér, Það hafa allir nóg að gera."

„Ég sé að þú ert ekki að gera þetta í fyrsta skipti er það nokkuð?"

„Nei, ég má heita vanur maður," segir Guðmundur.

Hvar lærðir þú handbrögðin?

„Ég lærði þau norður í Skagafirði, í Fljótunum," svarar hann við.

Og ljárinn þarf að vera beittur.

Er þetta ekkert hættulegt?

„Nei ekki núorðið, þegar ég var að byrja var þetta dálítið hættulegt. Þá var ég með skurð á hverjum fingri."

En þú ert orðinn það vanur að þú ert hættur að skera þig?

„Blessaður ég er orðinn það vanur að ég þarf ekki einusinni að horfa lengur." segir Guðmundur og hlær við.

Það voru þó ekki allir jafn spenntir fyrir heyskapnum, því hryssan Stjarna vildi heldur borða heyið en bera það og sló því á frest að bera fyrstu baggana með því að smakka þá fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×