Innlent

Hótun um málsókn vegna umfjöllunar um kampavínsklúbba ,,grímulaus tilraun til þöggunar."

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, hóf ræðu sína á orðunum "Ég heiti Dagur og ég er drusla."
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, hóf ræðu sína á orðunum "Ég heiti Dagur og ég er drusla." Samsett mynd
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, hélt þrusuræðu á Austurvelli í dag í tilefni af Druslugöngunni að sögn viðstaddra.

Í ræðunni var hann ómyrkur í máli þegar hann tjáði sig um hótun um málsókn gegn Björku Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa, vegna ummæla sem hún lét falla vegna vændis á kampavínsklúbbum í borginni.

„Nú spretta upp í borginni kampavínsstaðir. Þeir selja líka aðgang að samvistum við konur. Og segjast fara að reglum. Í síðustu viku rauf Fréttablaðið þögnina um hvað þarna fer fram í grein Maríu Lilju Þrastardóttur og síðar viðtali Björk Vilhelmsdóttur," sagði Dagur „Björk spurði hinna augljósu spurninga um hvort á kampavínsklúbbum þrifist vændi, hvort þar þrifist mansal og kallaði eftir rannsókn lögreglu.“ Hann segir viðbrögðin við umfjölluninni fyrirséð, en lögmaður kampavínsstaðanna hótaði í kjölfar hennar málsókn.



„Það skal enginn dirfast að opna munninn. Og svo er haldið  áfram og vegið að starfsheiðri blaðakonunnar. Og með hvaða rökum. Jú, María Lilja er feministi og hefur skipulagt druslugöngu í Reykjavík. Vó!,“ sagði Dagur. „En þó þessi málatilbúnaður virki hlægilegur þá á hann sér alvarlegri hlið. Þetta er ekkert annað en grímulaus tilraun til þöggunar.“

Dagur hrósaði einnig þeim sem nýlega hafa stigið fram og rofið þögnina í tengslum við kynferðisofbeldi sem þeir urðu fyrir. Bað hann druslur allra landa að sameinast þvert á landamæri og kvað Druslugönguna aldrei hafa verið öflugri en í ár.

Ræðuna í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×