Enski boltinn

"Wenger er toppnáungi”

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger (t.v.) og Mourinho.
Wenger (t.v.) og Mourinho. Mynd/Samsett
Jose Mourinho segir litlar sem engar líkur á því að honum og Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, sinnist á komandi tímabili.

Mourinho er mættur aftur í ensku úrvalsdeildina og tekinn við liði Chelsea. Níu ár er síðan hann tók við bláklædda liðinu fyrir tímabilið 2004-2005. Tímabilið á undan hafði Arsenal unnið sigur í deildinni án þess að tapa leik.

„Hann hefur áhyggjur af okkur og talar stöðugt um okkur. Ég heyri bara Chelsea, Chelsea, Chelsea og Chelsea. Ég veit ekki hvort hann langi í starfið mitt,” sagði Mourinho á sínum tíma.

Wenger var ekki par sáttur við yfirlýsingar Mourinho og velti fyrir sér að sækja Portúgalann til saka.

„Þegar heimskt fólk nær árangri þá verður það stundum enn heimskara,” svaraði Frakkinn.

Mourinho segir þá Wenger ná miklu betur saman í dag.

„Ég hef ná að hitta hann oftar eftir að ég yfirgaf úrvalsdeildina og fór að venja komur mínar á samkomur hjá UEFA, heimsmeistaramót og Evrópumót. Við hittumst nokkrum sinnum, snæddum saman kvöldverð og fleira í þeim dúr,” segir Mourinho. Hann segir auðveldara að spjalla við knattspyrnustjóra þegar þeir starfa í öðrum deildum en þegar liðin eru í stöðugri keppni.

„Það er auðveldara að ræða um fótbolta á þeim vettvangi. Hann er toppnáungi," segir Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×