Enski boltinn

Allt er gott sem endar vel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
United fagnar marki í Hong Kong í dag.
United fagnar marki í Hong Kong í dag. Nordicphotos/AFP
Manchester United lauk ferðalagi sínu um Asíu í dag með 5-2 sigri á Kitchee í Hong Kong.

Rauðu djöflarnir höfðu töluverða yfirburði framan af leik. Danny Welbeck kom United yfir með skoti af stuttu færi eftir stangarskot Ashley Young. Cleverlay lagði upp annað markið fyrir Chris Smalling sem skoraði með skalla.

Fabio Da Silva skoraði þriðja markið eftir undirbúning Wilfried Zaha og Adnan Januzaj skoraði fjórða markið snemma í síðari hálfleik.

Heimamenn neituðu hins vegar að gefast upp og minnkuðu muninn í 4-2 með tveimur laglegum mörkum. Annars vegar var um að ræða skot utan teigs efst í markhornið en í síðara markinu leit Hollendingurinn Alexander Büttner illa út.

Ungstirnið Jesse Lingard skoraði svo síðasta mark leiksins með laglegu skoti með hægri fæti utan teigs. Boltinn hafnaði efst í markhorninu.

Sigurinn var kærkominn hjá United eftir jafntefli gegn japanska liðinu Cerezo Osaka og tap gegn Yokohama F. Marinos. Næsti leikur United er gegn AIK í Svíþjóð annan þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×