Enski boltinn

United mögulega að undirbúa tilboð í Bale

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samkvæmt enskum fjölmiðlum verða sögusagnir þess efnis að Manchester United ætli sér að bjóða í Gareth Bale, leikmann Tottenham, sífellt háværari.

Undirbúningstímabilið hjá Tottenham er byrjað og skoraði Bale mark liðsins í 1-1 jafntefli gegn Swindon fyrr í vikunni eftir undirbúning Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, hefur áður sagt að hann sé þess fullviss að Bale verði ekki seldur frá félaginu í sumar og að hann hafi fengið fullvissu frá stjórnarformanni félagsins þess efnis.

Ed Woodward, framkvæmdarstjóri Manchester United, var staddur með liðinu í Ástralíu í gær en er nú samkvæmt fréttavef Sky Sports á heimleið þar sem hann þurfti að ganga frá aðkallandi félagaskiptamálum. Óvíst er hvort að það tengist Bale eða einhverjum öðrum.

Spænska blaðið AS fullyrðir í morgun að forráðamenn Tottenham séu reiðubúnir að tvöfalda laun Bale til að halda honum hjá félaginu. Hann fengi þá um 28 milljónir króna í vikulaun, samkvæmt frétt spænska blaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×