Enski boltinn

Wilshere: Hin liðin munu hræðast Arsenal með Wayne Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere og Wayne Rooney.
Jack Wilshere og Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enski landsliðsmiðjumaðurinn Jack Wilshere er viss um að Arsenal komi til með að berjast um titlana takist félaginu að fá til sín réttu mennina í sumar.

Wilshere horfir sérstaklega spenntur til þess að fá tækifæri til að spila við hlið landa síns Wayne Rooney. Rooney vill komast í burtu frá Old Trafford eftir skrautlegan endi á síðustu leiktíð.

„Það yrði æðislegt ef að Rooney kæmi til okkar. Hann er leikmaður sem hjálpar þínu liði að vinna titla. Liðin munu líka fyllast hræðslu við að sjá nafnið hans á leikskýrslunni. Slíkt kæmi sér vel fyrir okkur," sagði Jack Wilshere í viðtali við ESPN.

Arsenal fær 75 milljónir punda til að eyða í nýja leikmenn í sumar en félagið hefur einnig mikinn áhuga á argentínska framherjanum Gonzalo Higuaín og belgíska miðjumanninum Marouane Fellaini. Allir munu þessir leikmenn kosta skildinginn og enginn þeirra sættir sig heldur við einhver meðallaun.

Arsenal hefur þegar losað sig við þá Andrey Arshavin, Denílson og Sébastien Squillaci í sumar og þá gæti félagið einnig aflað auka pening með því að selja menn eins og Nicklas Bendtner, Johan Djourou og Marouane Chamakh.

„Það er ekkert leyndarmál að við verðum að fara að vinna titla. Það eru komin sjö ár síðan sá síðasti kom í hús og allir leikmennirnir finna fyrir pressu. Ég er viss um að stíflan muni bresta þegar við náum þeim fyrsta," sagði Jack Wilshere.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×