Innlent

Kúm bjargað úr brennandi fjósi

Gissur Sigurðsson skrifar
Greiðlega gekk að slökkva eldinn og kýrnar héldu ró sinni.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn og kýrnar héldu ró sinni.
Hátt í 60 kúm var bjargað á síðustu stundu út úr brennandi fjósi að bænum Egg í Hegranesi í Skagafirði í nótt.

Það var um tvö leitið í nótt að Húsfreyjan á Hamri, sem er næsti bær við Egg, fann brunalykt, en hægan andvara lagði frá Egg að Hamri. Heimilisfólkið á Hamri hélt þá stax að Eggi, til að kanna málið og logaði á í mæni fjóssins , sem var að fyllast af reyk, en heimafólk hafði einskis orðið vart.

Greiðlega gekk að koma kúnum út úr fjósinu, sem var orðið fullt af reyk þegar slökkvilið frá Sauðárkróki kom á vettvang. Að sögn Svavars Birgissonar, aðstoðarslökkviliðsstjóra, mátti ekki tæpara  standa að rýma fjósið, en annars voru aðstæður ákjósanlegar, eða nánast logn og rigning.

Slökkviliðsmenn þurftu að rífa upp þakið til að komast að glæðum og segir Svavar ljóst að tjónið sé mikið. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá tilteknum rafmagnsrofa, en það verður rannsakað nánar í dag. Kýrnar héldu ró sinni, fylgdust fyrst með slökkvistarfinu, en fóru svo á beit. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×