Enski boltinn

Vilja kvennalið Manchester United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pheby ásamt dóttur sinni Adelle.
Pheby ásamt dóttur sinni Adelle. Mynd/Heimasíða Pheby
Grjótharður stuðningsmaður Manchester United safnar nú undirskriftum sem hann ætlar að afhenda David Moyes.

Tilefni undirskriftalistans er að stuðningsmaðurinn, Graham Pheby, vill að United haldi úti kvennaliði. Helstu keppinautar félagsins í karlaboltanum halda úti kvennaliðum og nú finnst Pheby kominn tími á sitt félag.

„United er augljóslega fjarverandi í heimi kvennaboltans sem er í mikilli sókn," segir Pheby í viðtali við Manchester Evening News. Pheby, sem er 67 ára og fyrrverandi kennari, á fimm dætur og sex afastelpur.

„Meira að segja FC United of Manchester, sem hefur afar takmarkað fjármagn á milli handanna, heldur úti kvennaliði þ.a. það gengur hreinlega ekki upp að United sé ekki með lið."

Pheby hefur þegar safnað tæplega 2000 undirskriftum og ætlar að halda á fund með David Moyes, nýjum knattspyrnustjóra United.

„Þegar Moyes var stjóri Everton var kvennaliði félagsins komið á koppinn. Þetta er fullkominn tími til að gera hið sama hjá United."

Félagið var með kvennalið til ársins 2005 þegar starfseminni var hætt. Ástæðan var sú að reksturinn skilaði ekki hagnaði. Stúlkur mega þó æfa hjá félaginu til sextán ára aldurs.

„Knattspyrnuakademían fyrir stúlkur hjá félaginu er afar góð en það er synd að þær þurfi að yfirgefa félagið við sextán ára aldur og mögulega semja við önnur félög eins og Manchester City eða Everton," segir Pheby.

Hægt er að skrifa undir beiðni Pheby til David Moyes hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×