Enski boltinn

Dreymir um Dakar rallýið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Andre Villas-Boas knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham segist aðeins ætla að sinna knattspyrnuþjálfun í tíu ár í viðbót. Þá ætli hann að reyna fyrir sér í Dakar rallýinu.

Villas-Boas hefur sett stefnuna á að hætta þjálfun þegar hann verður 45 ára gamall. Portúgalinn er aðeins 35 ára gamall en hann varð yngsti þjálfarinn til að vinna Evrópubikar þegar hann stýrði Porto til sigurs í Evrópudeildinni fyrir tveimur árum síðan.

„Ástríða mín fyrir fótbolta gerir það að verkum að ég lifi og hrærist af mikilli innlifun í fótbolta í 11 mánuði á ári. Ég er í þessu af líf og sál en ég held að lífið bjóða upp á meira,“ sagði Villas-Boas við portúgalska íþróttamiðilinn O Jogo.

„Markmið mitt í lífinu er að keppa í Dakar Rallýinu og það er eitthvað sem ég verð að gera,“ sagði Villas-Boas sem einbeitir sér að Tottenham þessa dagana.

„Ég vil vera stoltur af mínum ferli. Ég reyni að láta lið mín spila góðan fótbolta. Ég veit ekki hvert ferill minn mun stefnir. Ég veit bara að hann verður ekki of langur,“ sagði Villas-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×