Innlent

Vill að Landsvirkjun verði gullgæs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, fagnaði óvæntum samhljómi í umræðum um rammaáætlun á Alþingi síðdegis í gær. Hann og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sögðu báðir gríðarleg tækifæri í orkuauðlindum þjóðarinnar og sagði Árni Páll að Landsvirkjun gæti orðið sannkölluð gullgæs.

Formaður Samfylkingarinnar vitnaði til nýlegra yfirlýsinga ráðherra um að til greina kæmi að Landsvirkjun semdi um orkusölu til álvers í Helguvík og spurði hvort arðsemi yrði lögð til grundvallar við ákvarðanir um virkjanir eða hvort pólitísk handaflsbeiting myndi ráða.

„Þetta snýst ekki um að ég sé á móti álveri í Helguvík. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk ráðherra, sem standa eiga varðstöðu um arðsemi af auðlindinni, að gefa grænt ljós á að tilteknir viðsemjendur séu sérstakir vildarvinir ríkisins og njóti velþóknunar ríkisstjórnarinnar og þar með gefa Landsvirkjun til kynna að það sé beinlínis ætlast til þess að samið sé við þessa aðila," sagði Árni Páll.

Fjármálaráðherra sagði hins vegar að ekki yrði hróflað við grunnhlutverki Landsvirkjunar:

„Sem er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Þetta er eitthvað sem við hljótum að geta verið sammála um," sagði Bjarni.

„Það kemur mér ánægjulega á óvart að sjá þennan góða samhljóm sem er í þessari umræðu," voru viðbrögð Árna Páls. Kvaðst hann sérstaklega fagna yfirlýsingu Bjarna um að viðskiptaleg sjónarmið yrðu látin ráða og kvaðst treysta því að ekki yrði hróflað við arðsemisstefnu Landsvirkjunar.

„Það eru gríðarleg tækifæri í aukinni arðsemi Landsvirkjunar. Það er hægt að auka arðsemi Landsvirkjunar mjög og það er mikilvægt að við gerum það þannig að þetta fyrirtæki verði okkur sannkölluð gullgæs. En þannig að allt verði þetta gert með sjálfbærum hætti," sagði Árni Páll.



Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

„Ég er þeirrar skoðar að við eigum enn ótrúlega miklar auðlindir óbeislaðar. Það rennur enn mikið vatn óbeislað til sjávar. Það á ekki bara við á þeim stöðum þar sem ekki hefur verið virkjað. Það á líka við á stöðum þar sem þegar hefur verið virkjað," sagði Bjarni. 

Hann benti meðal annars á að framhjá Kárahnjúkavirkjun rynni um það bil 9% af öllu því afli sem þegar hefði verið virkjað hjá Landsvirkjun. Það gætu verið 100-200 megavött. 

„Það eru ómæld tækifæri, ef menn bara hafa viljann og framtíðarsýn til að grípa þau til að bæta lífskjörin í landinu," sagði fjármálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×