Erlent

"Ritskoðun vísinda af verstu sort"

Jóhannes Stefánsson skrifar
David Nutt er ekki ánægður með stöðu mála.
David Nutt er ekki ánægður með stöðu mála. Mynd/ AFP
Ólögmæti fíkniefna á borð við „sveppi," kannabisefni og önnur hughvarfalyf standa vísindastarfi fyrir þrifum og jaðrar við ritskoðun á vísindunum. Þetta leiðir til þess að rannsóknir á læknisfræðilegum notum lyfjanna eru skammt á veg komnar samkvæmt yfirlýsingu vísindamanna sem skrifa í fagtímaritið Nature Reviews Neuroscience.

Lög og alþjóðasáttmálar um fíkniefni frá sjöunda áratugnum hafa það í för með sér að þekking á sviðum á borð við meðvitundarstig manna er áratugum á eftir öðrum fræðasviðum, samkvæmt tímaritinu. Lögin standa þannig vísindunum fyrir þrifum.

„Ákvörðunin um að gera þessi lyf ólögmæt var í upphafi byggð á hugmyndum um skaðsemi efnanna, en í mörgum tilfellum hefur skaðsemin verið ofmetin," sagði David Nutt, sérfræðingur í taugageðlyflækningum (e. neuropsychopharmacology).

Nutt sagði í yfirlýsingu að ólögmæti lyfjanna væri „ritskoðun vísinda af verstu sort síðan Kaþólska Kirkjan bannaði verk Kópernikusar og Galileó."

Þekkingunni farið fram en lögunum ekki

„Þekking á þessum lyfjum hefur aukist nokkuð en lögin í kringum þau hafa hins vegar aldrei verið uppfærð, þrátt fyrir að nú sé talið að mörg þeirra séu tiltölulega örugg. Þá virðist engin leið fyrir alþjóðasamfélagið að koma að neinum breytingum. Þessar hindranir sem standa í vegi vísindana eru til komnar af pólitískum ástæðum, en ekki vísindalegum."

Tveir rannsakendanna, David Nutt og Leslie King, eru fyrrum ráðgjafar breskra yfirvalda í fíkniefnamálum. Þeir tveir og einn til hafa farið þess á leit að notkun hughvarfalyfa í rannsóknarskyni verði undanþegin þeim miklu takmörkunum sem um þau gilda núna.

„Ef við myndum innleiða rökréttari löggjöf myndi það greiða götu rannsakenda og gera þeim í auknum mæli kleift að rannsaka meðvitund manna og virkni heilans í geðrofum. Þetta gæti leitt af sér miklar framfarir í meðferðum á þunglyndi og áfallastreituröskun," sagði Nutt.

Nutt var lengst af ráðgjafi hins opinbera en var sagt upp eftir að hafa á opinberum vettvangi gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hundsa vísindalega ráðgjöf í tengslum við kannabisefni og alsælu. Nutt hefur framkvæmt rannsóknir á notkun efnisins psilocibyn, en það er virka efnið í „sveppum."

Rannsókn Nutt bendir til þess að lyfið megi nota til að slá á þunglyndi hjá þeim sem bregðust ekki við annarskonar lyfjameðferð. Nutt hugðist halda áfram rannsóknum sínum á sviðinu og endurtaka hana á klínískan hátt en vegna strangrar löggjafar var honum það ókleift.

Vísindamennirnir segja að Samtök breskra taugalækna (e. British Neuroscience Association) og Samtök geðlyflækna (e. British Association for Psychopharmacology) styðji hugmyndir um endurskoðun laganna.

Þetta segir á vef Fox News.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×