Innlent

Füle vonsvikinn með hlé á aðildarviðræðum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, funduðu í dag þar sem fyrirhugað hlé á aðildarviðræðum Íslands við ESB var rætt.

Á blaðamannafundi klukkan 16 kynntu þeir niðurstöðu fundarins, en að mati Füle var fundurinn góður og uppbyggilegur.

„Við virðum óskir íslenskra yfirvalda,“ sagði Füle á blaðamannafundinum. „Við höfum fulla trú á að Ísland eigi heima innan Evrópusambandsins og það er mikill áhugi fyrir því að klára viðræðurnar að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Við höfum bæði vilja og getu til þess. Nú bíðum við mats íslensku ríkisstjórnarinnar.“

Füle sagði að ákvörðunin hefði valdið sér vonbrigðum, en mikilvægt væri að virða vilja íslenskra yfirvalda og vilja þjóðarinnar. Þó væri ekki hægt að fresta viðræðunum óendanlega.

Gunnar Bragi tók einnig til máls á fundinum, og tjáði hann blaðamönnum að ákveðið hefði verið að gera hlé á viðræðunum, og að þeim yrði ekki framhaldið fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ísland er hluti af Evrópu og við viljum styrkja tengslin við Evrópu með öðrum hætti,“ sagði Gunnar Bragi, og lýsti yfir vilja sínum og ríkisstjórnar að styrkja þátttöku Íslands í EES-samstarfinu, og efla enn frekar samstarf Íslands og ESB á sviði endurnýjanlegrar orku, málefna norðurslóða, sjávarútvegs og landbúnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×