Fótbolti

Missa mögulega af HM vegna gleymsku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Romao, til vinstri, í leik með Tógó.
Romao, til vinstri, í leik með Tógó. Nordic Photos / Getty Images
Líklegt er að stig verði dregin af Tógó og Eþíópíu í undankeppni HM 2014 í Afríku þar sem að liðin hafa játað að nota ólöglegan leikmann.

Alaixys Romao tók þátt í 2-0 sigri Tógó á Kamerún þann 9. júní síðastliðinn. Hann var þó með tvær áminningar á bakinu og hefði ekki átt að spila samkvæmt reglum FIFA.

Þetta hefur mikil áhrif á riðil þessara liða en Libýa er nú á toppnum með tveggja stiga forystu á Kamerún. Síðarnefnda liðið færi því á toppinn ef að því verður dæmdur sigur gegn Tógó.

Hið sama má segja um Eþíópíu sem notaði leikmann sem átti að vera í banni í 2-1 sigri á Suður-Afríku í sínum riðli. Sigurinn tryggði Eþíópíu efsta sætið í sínum riðli en verði þrjú stig tekin af liðinu er allt galopið fyrir lokaumferðina.

Svo virðist sem að forráðamenn landsliða Tógó og Eþíópíu hafi einfaldlega gleymt að athuga hvort að umræddir leikmann mættu taka þátt í leikjunum.

Þetta eru þar að auki ekki einu dæmin um þetta. Búrkína Fasó og Gabon hafa bæði tapað stigum fyrir að nota leikmenn sem voru fæddir í Kamerún og Súdan tapaði þremur stigum fyrir að nota leikmann sem átti að vera í banni.

Þá hefur knattspyrnusamband Miðbaugs-Gíneu verið kært fyrir að flytja inn leikmenn frá Brasilíu og Kólumbíu fyrir leik í undankeppni HM 2014.

Sigurvegarar riðlanna tíu í undankeppninni komast áfram í umspilskeppni um fimm laus sæti á HM í Brasilíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×