Innlent

Brotist inn í Þjónustusetur líknarfélaga

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Innbrotsþjófar létu greipar sópa í Þjónustusetri líknarfélaga að Hátúni 10 í nótt.
Innbrotsþjófar létu greipar sópa í Þjónustusetri líknarfélaga að Hátúni 10 í nótt.

Brotist var inn í Þjónustusetur líknarfélaga að Hátúni 10b í nótt. Húsnæðið hýsir 9 líknarfélög. Þjófarnir létu greipar sópa, skemmdu húsgögn og tættu verðmæt skjöl. Starfsmenn segja aðkomuna hafa verið vægast sagt ömurlega. 



Svava Aradóttir, formaður stjórnar þjónustusetursins, segir þjóðfélagið vera langt leitt fyrst brotist sé inn í slíkar stofnanir. „Þetta er hræðilega sorglegt. Félögin sem eru hér til húsa eru mjög fátæk svo hér eru engir peningar eða verðmæti. Mennirnir höfðu nú ekki mikið meira upp úr krafsinu en eina fartölvu.“ Innbrotsþjófarnir höfðu einnig á brott með sér harða diska sem innihéldu myndir og upplýsingar um sögu félagsins. Svava segir tjónið því ekki endilega veraldlegt heldur að stærsti missirinn sé að glata þessum óbætanlegu gögnum.



Svava segir að tilgangslausar skemmdir hafi verið gerðar á gömlum húsgögnum í Þjónustusetrinu. „Þeir sáu ástæðu til að skemma og tæta og  gerðu mikið tjón á þessum fáu húsgögnum sem eru til hér.“ Innbrotsþjófarnir brutu upp skápa og hirslur og dreifðu tættum gögnum um gólfið. „Þetta er ömurlegt og við höfum ekki hugmynd um hver gæti hafa gert þetta. Ég skil ekki hvernig fólk getur gert svona hluti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×