Innlent

Svavar stóðst pungaprófið með stæl

Kristján Hjálmarsson skrifar
Það er í nógu að snúast hjá Svavar Halldórssyni. Hann hefur stofnað fyrirtæki sem framleiðir meðal annars sjónvarpsþætti um mat og nú er hann kominn með pungaprófið.
Það er í nógu að snúast hjá Svavar Halldórssyni. Hann hefur stofnað fyrirtæki sem framleiðir meðal annars sjónvarpsþætti um mat og nú er hann kominn með pungaprófið.

"Mig hafði alltaf langað til að taka pungaprófið," segir Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV og eiginmaður Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda, sem hefur nú öðlast réttindi til að sigla bátum allt að 24 metra löngum.

"Upphaflega ætlaði ég bara að taka atvinnuréttindin sem veitir réttindi á báta allt að tólf metrum en þar sem ég þekki fólk sem á skemmtibáta og hef verið töluvert til sjós ákvað ég að taka próf sem veitir réttindi á báta allt að 24 metrum," segir Svavar sem stóðst prófið með stæl. "Þetta var mjög skemmtilegt og fróðlegt nám."

Fréttamaðurinn fyrrverandi segist nú vera með augun opin fyrir einhverjum bátadíl, eins og hann orðar það, en ætlar þó ekki á strandveiðar eða neitt því um líkt.

"Mér hefur alltaf þótt hálf asnalegt að vera Íslendingur, búandi á eyju, en ekki með réttindi til að sigla," segir Svavar. "Ég á góðan vin í Noregi sem varð mjög hissa þegar hann komst að því að ég væri ekki með réttindin. Í Osló er nánast hver einasti maður með siglingaréttindi, það er bara eins og að taka bílprófið."

Svavar hefur nú sagt skilið við fréttamannastarfið en hefur stofnað fyrirtækið Íslenskur matur og matarmenning. "Við erum að skoða eitt og annað sem snýr að mat - sjónvarpsþáttagerð, bækur og svoleiðis. Við erum á fullu að koma fyrirtækinu á koppinn en það er ótímabært að tala um þau."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×