Lífið

Sigurlíkur Íslands 1 á móti 150

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Eyþór Ingi mun hefja upp raust sína fyrir Íslands hönd í Malmö á fimmtudaginn.
Eyþór Ingi mun hefja upp raust sína fyrir Íslands hönd í Malmö á fimmtudaginn.
Afar ólíklegt er að lagið „Ég á líf“, sem er framlag Íslands til Eurovision í ár,  muni vegna vel í keppninni  samkvæmt helstu veðbönkum. Þá er ekki reiknað með því að lagið komist áfram upp úr undankeppninni á fimmtudag.

Stafræni veðbankinn Paddy Power segir líkurnar á að Ísland vinni keppnina aðeins vera 1 á móti 150. Frændur okkar Danir eru aftur móti mjög sigurstranglegir, en þeirra líkur eru 4 á móti 5. Úkraína og Noregur þykja einnig líkleg til sigurs.



Jónatan Garðarsson, fararstjóri íslenska hópsins í Malmö, segir móralinn góðan og Íslendingana ekki hafa miklar áhyggjur af spám veðbankanna. „Árlega fer fram kosning meðal blaðamannana og helstu Eurovision aðdáenda á keppnisstað. Samkvæmt þeirri kosningu erum við í sjöunda sæti í okkar riðli svo þetta lítur bara vel út. Þetta lið sem fylgist með keppninni ár eftir ár veit alveg hvað það syngur og þær spár eru mun marktækari en veðbankarnir.“



Ekki endilega markmiðið að komast áfram

Jónatan segist ekki hafa neinar áhyggjur af því að komast ekki áfram. „Það skiptir ekki máli. Markmiðið er að gera okkar besta og að Eyþór skili laginu frá sér af einlægni. Móralinn í hópnum er alveg frábær og allir mjög vel stemmdir. Æfingarnar hafa gengið eins og í sögu og margir hafa hrósað okkur fyrir að syngja á íslensku. Það eru óvenju mörg lönd sem syngja á sínu móðurmáli í ár, það er greinilega að komast aftur í tísku“, segir Jónatan sem er spenntur fyrir rennsli í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.