Innlent

Rannsókn um samskipti á Facebook kynnt

Um helgina verður haldin Þjóðfélagsráðstefna við Háskólann á Bifröst þar sem yfir hundrað fyrirlestrar verða og margar nýjar rannsóknir kynntar.

Ein þeirra rannsókna sem kynnt verður ber heitið: ,,Knús á þig aulinn þinn" og fjallar um kynleg samskipti á netinu.  Dr. Finnur Friðriksson dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri gerði úttektina.

Í tilkynningu kemur fram að í rannsókninni megi finna fjölmargt forvitnilegt um hegðun kynjanna, meðal annars á Facebook. Þannig virðast konur einráðar þegar kemur að hverdagslegum stöðuuppfærslum um föt og tísku. Karlarnir tjá sig frekar um íþróttir og segja brandara.

Þá eru karlanir nánast einir um að tjá sig um kvikmyndir og tónlist samkvæmt rannsókninni.

Þegar athugasemdirnar á Facebook eru skoðaðar kemur meðal annars í ljós að karla kommenta meira hjá körlum og öfugt. Til dæmis eru 76% kommenta kvenna svar við stöðuuppfærslum kvenna.

Á ráðstefnunni verða yfir eitt hundrað fyrirlestrar haldnir og fjalla þeir um allt á milli himins og jarðar; kynlíf í gamla bændasamfélaginu, hagræn áhrif bókaútgáfu, áhugamannakóra, kannabisnotkun fullorðinna, fiskveiðideilur á Norðurslóðum, þróunarsamvinnu, efnahagsástandið, áhrif og óhefðbundnar lækningar,  konur í stjórnum fyrirtækja og lýðræðistilraunir svo fátt eitt sé nefnt. 

Nánar upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×