Innlent

„Hrein sóun á landi og almannafé“

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýtt vegastæði hefur verið gríðarlega umdeilt.
Nýtt vegastæði hefur verið gríðarlega umdeilt. Mynd/ Vilhelm.
„Þótt sumir sjái enga fegurð í hrauni þá þarf ekki sérfræðing til að sjá að mislæg gatnamót fyrir 2.500 manns er hrein sóun á landi og almannafé," segir Andri Snæ Magnason í opnu bréfi um fyrirhugaðan Álftanesveg yfir Gálgahraun í Garðabæ. Mikill styr hefur staðið um þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í hrauninu. Bréfið, sem Andri Snær skrifaði til Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í Garðabæ, birtist í Fréttablaðinu og hér á Vísi í morgun.

Hraunvinir, sem leggjast gegn vegagerðinni, hafa efnt til mótmæla í hrauninu og halda úti undirskriftasöfnun á netinu og síðu á Facebook þar sem sjónarmið þeirra eru rakin. Segja þau að hraunið sé á náttúruminjaskrá og njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum.

Í grein sinni bendir Andri Snær meðal annars á að Álftanesvegur sé hannaður fyrir 20.000 bíla á sólarhring. Byggð í Garðaholti verði ekki í bráð og Álftanes muni ekki vaxa á þeim hraða sem ætlað var. Á höfuðborgarsvæðinu séu tilbúin hverfi með lögnum, veitum og vegum fyrir vöxt næstu tuttugu ára. Urriðaholt sé tómt, Úlfarsárdalur, Helgafellslandið - endalaus svæði til að fylla og búið að kosta tugmilljörðum í lagnir og vegi. Misfellur á gamla veginum megi laga fyrir brot af þeim milljarði sem nýr vegur kosti.

Þá bendir Andri Snær á að hraunið sé mikilvægt náttúrufyrirbrigði sem beri að vernda og að aðrar lausnir séu færar en vegur um hraunið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×