Innlent

Sigmundur Davíð útilokar ekkert

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins segir ekki gott að segja til um það
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins segir ekki gott að segja til um það Mynd/ Frikki.
Formaður Framsóknarflokksins segir flokkinn hvorki útiloka stjórnarsamstarf til hægri eða vinstri eftir kosningar þrátt fyrir að varaformaður flokksins hafi gefið annað í skyn.

Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður Framsóknarflokksins var spurður út í hugsanlegt stjórnarsamstarf eftir kosningar í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Skoðanakannanir sem birst hafa undanfarið benda til þess að flokkurinn fái flesta þingmenn kjörna í komandi þingkosningum og fái umboð til ríkisstjórnarmyndunar.

„Bæði Vinstri-grænir og Samfylkingin hafa nú ráðist á okkur varðandi atvinnumálin núna í kjölfar kosninganna, í kosningabaráttunni, og virðast ekki vera tilbúnir að snúa af þeirri braut ekki einu sinni Samfylkingin að koma atvinnulífinu í gang á Íslandi þá eru þeir að útiloka sjálfan sig frá stjórnarþátttöku,“ segir Sigurður Ingi.

Ummæli hans vöktu hörð viðbrögð hjá Össuri Skarphéðissyni utanríkisráðherra sem sagði í viðtali við DV að með þessu væri Framsóknarflokkurinn búinn að ákveða að mynda hægristjórn og leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri-grænna tók í sama streng á facebooksíðu sinni.

Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins segir flokkinn ganga óbundinn til kosninga. Hann útilokar hvorki hægri eða vinstristjórn fari svo að Framsóknarflokkurinn verði í oddastöðu eftir kosningar.

„Um leið og menn eru búnir að segja að við ætlum að vinna með þessum en ekki hinum þá eru þeir búnir að veikja eigin samningsstöðu en styrkja samningstöðu þess sem þeir ætla að vinna með og við þurfum að hafa sterka samningsstöðu eftir kosningar,“ segir Sigmundur Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×