Innlent

Bæjarstjóri Garðabæjar óttast ekki að fara aftur yfir málefni Álftanesvegar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Bæjarstjóri Garðabæjar óttast ekki að fara aftur yfir málefni Álftanesvegar en vegamálastjóri segir að gott hefði verið að fá niðurstöðu í málið fyrr. Innanríkisráðherra hefur beðið þá að fara aftur yfir forsendur fyrir lagningu nýs vegarkafla í Gálgahrauni en framkvæmdunum, sem áttu að hefjast nú í maí, hefur verið mótmælt harðlega.

Alþingi samþykkti lagningu nýs Álftanesvegar og verkið var boðið út. Komið var að því að undirrita samning við verktaka vegna framkvæmdanna sem hefjast áttu í lok maí.

Veginum hefur verið mótmælt harðlega og því haldið fram að nægilegt væri að endurbyggja veginn í núverandi vegstæði til að vernda Gálgahraunið og nú hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, óskað þess að farið verði aftur yfir málið og kannað hvort unnt verði að framkvæma samgöngubætur á Álftanesi í sátt við náttúruverndarsinna. Þess má geta að kraginn er kjördæmi innanríkisráðherra.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir að farið hafi verið margoft yfir málið undanfarin ár.

„En það er ekkert sem við óttumst, að fara yfir málið enn og aftur, við gerum það bara með glöðu geði,“ segir Gunnar. „Það hefur alltaf vakað fyrir okkur í Garðabænum að reyna að finna ásættanlega lausn og þess vegna var þetta nú teiknað hér í þessa línu en ekki farið lengra út í hraunið.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, segir fullt tilefni til að fara aftur yfir málið til að leiðrétta ýmsan misskilning og skoða hvort hægt sé að mæta gagnrýni sem komið hafi fram.

„Það hefði verið  betra vissulega að hafa þetta í höfn fyrr en þetta mál er búið að vera í vinnslu í tíu ár svo þetta er ekki í fyrsta sinn sem það tefst,“ segir Hreinn. Spurður um hvort vinnubrögðin séu í lagi segir hann að aðeins sé verið að fylgja lögum.

„Þetta var kært á tveimur stigum og það þarf náttúrulega að fylgja þeim kærum og það tekur sinn tíma. Það er ekki stofnunin, Vegagerðin, sem stjórnar hraðanum í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×