Innlent

Baráttunni gegn glæpagengjum haldið áfram

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vítisenglar eru einn þeirra hópa sem skilgreindir hafa verið sem skipulögð glæpasamtök.
Vítisenglar eru einn þeirra hópa sem skilgreindir hafa verið sem skipulögð glæpasamtök.
25 milljónum króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar verður varið til áframhaldandi vinnu lögreglu í viðureign við skipulagða glæpastarfsemi. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra þessa efnis í morgun. Ráherra segir að þetta framlag þurfi síðan að endurskoða í tengslum við fjáraukalög í haust og fjárlög næsta árs með það fyrir augum að framlög til þessa starfs verði eigi minni en verið hafa. Hann segir jafnframt að rannsóknir lögreglu og aðgerðir hafi skilað miklum árangri.

Ríkisstjórnin hefur undanfarin misseri veitt sérstakt framlag til lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum vegna rannsóknarteymis þeirra til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. Enn fremur hefur verið starfræktur stýrihópur undir forystu ríkislögreglustjóra en í honum eiga sæti auk fulltrúa ríkislögreglustjóra fulltrúar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunni á Suðurnesjum, lögreglunni í Borgarnesi, lögreglunni á Selfossi og tollstjóra.

Rannsóknarteymi lögreglunnar boðar til fundar með fréttamönnum síðar í dag þar sem greint verður frá árangri af starfinu fram til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×