Innlent

Sextán ára kaupa vændi hér á landi

Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á blaðamannafundinum í dag.
Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á blaðamannafundinum í dag. Mynd/GVA
Lögreglan hefur yfirheyrt hátt í 60 kaupendur vændis hér á landi síðustu vikur og mánuði og skoðað mál sem varða sjö vændiskonur, fimm erlendar og tvær íslenskar. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum hélt í dag.

Í morgun fékk lögreglan 25 milljóna aukafjárveitingu til að halda áfram að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, upplýsti blaðamenn um það að frá því í september hafi lögreglan rannsakað umfang mansals og vændis hér á landi, eftir beiðni frá innanríkisráðuneytinu.

„Þessi málaflokkur hefur ekki sætt svo ýkja mikilli athygli, og það hafa komið upp örfá mál. Við sáum fram á það að við gætum ekki fært okkur of mikið í fang. Við ákváðum að skoða birtingarmyndina eins og hún birtist á internetinu,“ sagði hann. Þar hafi lögreglan talið að birtingarmyndin væri hvað skýrust.

Á aldrinum 16 til 70 ára

Í þessum aðgerðum lögreglunnar hafa um 60 kaupendur vændis verið yfirheyrðir og um 60 mál eru í gangi í augnablikinu hjá lögreglunni. Aldur kaupenda er almennt á aldrinum 16 til 70 ára.

„Það er byrjað að ákæra í þessum málum. Verkefninu er alls ekki lokið. Við teljum að það þurfi almennt að kortleggja fleiri birtingarmyndir, til dæmis hvernig mansalsmálin birtast á vinnumarkaðnum. Við teljum að þar þurfi að stíga fastar niður,“ sagði hann.

Ýmislegt bendir til um tilvist vændishrings

Lögreglan hefur skoðað mál sem varða sjö vændiskonur, fimm erlendar og tvær íslenskar. „Þetta eru flóknar og tímafrekar rannsóknir. Við höfum ekki greint frá því hver staðan er núna, fyrr en á þessum tímapunkti. Við erum ennþá með fullt af málum í gangi. Hvert umfang vændis og mansals er á Íslandi; ég treysti mér ekki til að segja til um það. Við erum ekki enn komnir á þann stað til að fullyrða um það.“

Karl Steinar ítrekar að vændi sé ekki ólöglegt hér á landi, en það sé ólöglegt að hafa milligöngu um vændi. Til dæmis hafi konur komið hingað til lands nokkrum sinnum í stutt stopp frá því að lögreglan fór að skoða þennan málaflokk í september og að ýmislegt bendi til þess að skipulagður vændishringur sé starfræktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×