Innlent

Barnið lést, þrátt fyrir bænirnar

Jóhannes Stefánsson skrifar
Læknavísindin hafna því að bænir geti læknað sjúkdóma
Læknavísindin hafna því að bænir geti læknað sjúkdóma Mynd/ Getty
Par búsett í Fíladelfíu gæti átt von á ákæru vegna dauða sonar þeirra. Parið er á skilorði vegna dauða annars barns árið 2009, en parið vanrækti að fara með barnið til læknis og notaðist þess í stað við bænir.

Herbert og Catherine Schiable tilheyra strangtrúuðum kristilegum samtökum sem trúa að lækna megi sjúkdóma með trúarlegri heilun. Parið missti átta mánaða gamlan son sinn, Brandon, í seinustu viku. Hann hafði verið með niðurgang, átti erfitt með andardrátt í að minnsta kosti viku og var hættur að nærast.

Ákæruvaldið sagði á þriðjudaginn að beðið væri eftir niðurstöðum krufningar áður en ákvörðun um ákæru væri tekin.

Lögmaður Catherine bað fólk um að draga ekki ályktanir og segir parið góða foreldra. Hann bætti við að parið væri í mikilli sorg vegna missis annars barns.

„Það eru mun fleiri spurningar en svör sem liggja fyrir í málinu. Við erum ekki búin að sjá krufningarskýrsluna. Við vitum ekki hver dánarorsökin var," sagði lögmaðurinn við Associated Press. „Það sem liggur fyrir er að þau eru mikið niðri fyrir, þau eru ofboðslega sorgmædd yfir því að hafa misst barnið sitt."

Kviðdómur sakfelldi parið fyrir manndráp af gáleysi í janúar 2009, eftir að tveggja ára sonur þeirra lést. Drengurinn hafði verið með hósta, önugheit og litla matarlyst. Foreldrarnir sögðu að hann hefði nærst fram á hinsta dag og að þau hefðu haldið að hann væri að ná sér. Parið fékk tíu ára skilorð fyrir glæpinn.

Dómari sagði við parið á mánudaginn að það hafi rofið skilorð í ljósi þess að þau hafi tjáð rannsakendum að þau hefðu leitað á náðir Guðs með bænum, í stað þess að leita læknisaðstoðar fyrir drenginn.

„Þið hafið gert þetta áður með skelfilegum afleiðingum," sagði dómarinn, samkvæmt Philadelphia Daily News.

Ákæruvaldið hafði farið fram á að þau yrðu sett í gæsluvarðhald en því var hafnað af dóminum vegna þess að hinum sjö börnunum þeirra hafði verið komið á fósturheimili.

„Hann [dómarinn innsk. blm.] lítur þannig á að þau séu ógn við börnin sín - ekki samfélagið í kring heldur sín eigin börn," sagði aðstoðarsaksóknarinn Joanne Prescatore sem fór með fyrra málið gegn hjónunum, á mánudag.

Herbert Schaible, og konan hans ólust upp í First Century Gospel Church kirkjunni í norðaustur Fíladelfíu og hafa kennt við kirkjuna. Á vefsíðu kirkjunnar má sjá námskeið titlað: „Lækningar - Á vegum Guðs eða lyfja?" en þar má finna tilvitnanir í Biblíuna sem virðast banna kristnum að njóta læknisaðstoðar eða lyfjameðferða.

Nánar er fjallað um málið á vef ABC News.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×