Innlent

„Ég hugsa út í það versta, að vera drepin“

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Tvær króatískar fjölskyldur sem hafa sótt um hæli hér á landi óttast mikið að vera sendar til baka til heimalandsins þar sem þær hafa orðið fyrir miklu aðkasti vegna uppruna síns, en þau eiga rætur að rekja til Serbíu. Börn þeirra hafa orðið fyrir miklu aðkasti í Króatíu og þau vilja bara gott líf fyrir þau hér á landi og menntun.

Á gistiheimili í Reykjanesbæ hitti fréttastofa tvær af þeim króatísku fjölkskyldum sem hafa sótt um hæli hér á landi á undanförnum mánuðum, en fjölskyldumeðlimirnir telja tíu af þeim fjörutíu og átta Króötum sem hér eru.

Drazen Kolarevic er búin að vera hér síðan í janúar en kona hans Dragana kom með börnin þremur mánuði síðar. Þau voru kúabændur í Króatíu en fengu ekki greidd laun í fimm mánuði og misstu allt sitt. Þau notuðu síðustu aurana í flugmiða til Íslands í leit að betra lífi. Aðalmálið er að börnin fái tækifæri til að mennta sig. Elsta dóttir þeirra vildi fara í læknisnám í Króatíu en fékk einu sinni ekki að skrá sig því foreldrar hennar eru í blönduðu hjónabandi. Og þar liggur hundurinn grafinn. Drazen er króati en kona hans er frá Serbíu. Enn er mikil andstaða við blönduð hjónabönd Serba og Króata, þrátt fyrir að stríðinu á milli landanna hafi lokið fyrir um tuttugu árum síðan.

„Lífið í Króatíu er hörmung í mínum augum,“ segir Drazen og segir landið sem kynnt er fyrir ferðamönnum allt annað en það sem raunverulega er. „Þetta er ekki eins og það lítur út í sjónvarpi og blöðum, lífið þarna er mjög erfitt.“

Fjölskyldan segist hafa frétt af Íslandi í gegnum internetið og séð að hér væru góð tækifæri fyrir börnin. Þau segjast ekki hafa þekkt neina á Íslandi fyrir, en Drazen kannast við þrjá aðra í hópi króatískra hælileitenda.

„Ég hef einungis þekkt þrjár manneskjur sem eru hér, við höfum ekki hisst í mörg ár en vorum að hittast hér núna, vorum saman í fótbolta í gamla daga en við erum búnir að kynnast mikið betur hér og búin að kynnast öllm hinum sem hafa komið betur núna á þessum tímum.“

Barin á götum úti

Hin fjölskyldan bjó í bænum Vukuvar sem fór mjög illa út úr stríðinu. Þau komu hingað 17. febrúar. Hjónin eru bæði serbnesk að uppruna en þó fædd í Króatíu. Þau voru útskúfuð úr samfélaginu, bárust hótanir og voru mjög hrædd um líf sitt og barna sinna. En Mateja, 9 ára dóttir þeirra, hafði verið barin á götum úti vegna serbneska blóðsins. Marga hælisleitendanna eru komnir frá Vukuvar og svæðinu þar í kring og það virðist sem orðið um Ísland sem fyrirheitnaland hafi spurst þar út meðal minnihlutahópa.

„Við vissum af mörgum sem voru að fara af brott af landi í þeim tilgangi að fá hæli á Íslandi,“ segir Gordana Rajakovac. „Þetta var jafnvel fólk sem var þarna frá sama stað en allir fóru í leyni. Við erum að reyna að forðast hvort annað og komast í burt án þess að láta vita að við séum að fara.“

Þau segjast ekki eiga framtíð í Króatíu og ef að þau verði send til baka verði litið á þau sem fólkið sem sveik þjóðina, sem uppljóstrara.

„Ég má ekki hugsa til þes að fara til baka því ég veit hvað okkar bíður. Ég hugsa út í það versta, að vera drepin.“

Búið að birta nöfn þeirra sem hafa flúið

Hatrið er ljóst. Drazen sýnir okkur frétt um króatíska hælisleitendur á Íslandi á króatískri fréttasíðu frá 30. mars síðastliðnum. Í athugasemdarkerfi við fréttina er búið að birta nöfn sumra þeirra sem hafa flúið, meðal annars nafn Drazen. Mjög illa er skrifað um hann í færslunni og Drazen veit að þetta muni bitna illa á honum ef fjölskyldan verður send til baka.

Þau segja erfitt að lifa í óvissunni hér og biðinni og börnunum langi til baka til vina sinna en þar bíði þeirra samt engin framtíð. Þau segjast hafa heyrt að þeim verði vísað úr landi fljótlega, líklega nú í apríl og þau hafa áhyggjur af því hvað verði um þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×