Innlent

Illfært á Öxnadalsheiðinni - rúta fór út af veginum

Björgunarsveit í útkalli. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Björgunarsveit í útkalli. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Það er illfært á Öxnadalsheiðinni þessa stundina en rúta fóru út af veginum vegna slæmrar færðar. Þá festist strætisvagn einnig á heiðinni sem gengur á milli Reykjavíkur og Akureyrar, en vagninn er núna kominn til Varmahlíðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Viðari Arnarssyni í björgunarsveitinni Súlum á Akureyri er enginn slasaður eftir að rútan fór út af.

Heiðin er lokuð þessa stundina á meðan björgunarsveitarmenn athafna sig en búist er við, þegar búið er að ryðja veginn, að hún opni á ný, en það er ljóst að þarna er illfært.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni má finna ábendingu frá veðurfræðingi en þar segir að Það sé hvöss NA-átt á landinu í dag og spáð er hríðarmuggu og skafrenningi í allan dag norðaustan- og austanlands, frá Siglufirði austur um í Breiðdal.

Á Austfjörðum nær að hlána í byggð. Eins verða él á Norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum og sums staðar dimmur skafrenningur um landið norðvestanvert þó svo að ekki nái að snjóa. Gera má ráð fyrir vindhviðum um 30-35 m/s meira og minna í allan dag s.s. í Staðarsveit, undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi, við Lómagnúp og í Öræfasveit.

Sunnanlands verður að auki leiðinda sandfok hér og þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×