Innlent

Hægt að nálgast uppruna og innihald matvæla í farsímanum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tæknin er til staðar til að gera neytendum kleift að nálgast upplýsingar um uppruna og innihald matvæla, með því að skanna strikamerki inn í snjallsíma. Forstjóri Matís vonar að appið verði aðgengilegt hinum almenna neytanda sem fyrst.

Á ráðstefnu um matvælaöryggi í dag voru ræddar leiðir til að tryggja öryggi upplýsinga um uppruna hráefna. Hertar reglur Evrópusambandsins um rekjanleika verða væntanlega teknar upp hér á landi á næsta ári og segir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, þær munu auka kröfur um gagnsæi.

„Við erum bara að tala um að auka traust á matvælaframleiðslu og því að þú ert í raun að kaupa það sem þér er sagt að þú sért að kaupa," segir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Á ráðstefnunni var kynnt ný lausn, sem gera mun neytendum kleift að nálgast upplýsingar um vörur með því að skanna strikamerki inn í snjallsíma. Upplýsingar í svokallaðri gagnalaug munu koma frá framleiðendum, sem bera ábyrgð á gögnunum og munu notendur geta valið hvað þeir vilja skoða.

„Sumir hafa til að mynda áhuga á umhverfismálum og gætu þá óskað eftir slíkum upplýsingum. Aðrir myndu frekar vilja vita hvort varan kom frá Íslandi eða annars staðar frá."

Þá verða upplýsingar um næringargildi, fæðuóþol og fleira aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Sveinn segir tæknina til staðar, næstu skref hvíli á matvælaframleiðendum og vilja neytenda til að kalla eftir upplýsingum.

„Þessi lausn sem hefur verið í þróun er auðvitað mikilvæg fyrir íslenska neytendur, en hún er ekki síður mikilvæg fyrir íslenska matvælaframleiðendur því ef við stöndum okkur vel á heimamarkaði. Þá erum við líka í stakk búin til að miðla upplýsingum til erlendra kaupenda, til neytenda og hótela erlendis. Það er aukin eftirspurn eftir upplýsingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×