Innlent

Þrjú fyrirtæki hlutu jafnlaunavottun VR

Hrund Þórsdóttir skrifar
Þrjú íslensk fyrirtæki hlutu í gær, fyrst fyrirtækja, jafnlaunavottun VR, en hún er ætluð fyrirtækjum og stofnunum sem vilja sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki konum og körlum.

Karlmenn hafa að meðaltali rúmum 80 þúsund krónum meira í mánaðarlaun en konur, samkvæmt nýrri könnun Hagstofunnar sem við greindum frá í gær.

Jafnlaunavottun VR er tæki sem gefur atvinnurekendum færi á að leiðrétta kynbundinn launamun auk þess sem vottunin er sögð geta bætt starfsanda, styrkt ímynd og jafnvel auðveldað fyrirtækjum að fjármagna sig.

Fyrstu þrjú fyrirtækin til að hljóta vottunina eru IKEA, ISS Ísland og Íslenska gámafélagið.

VR setti sér það markmið að um 30 fyrirtæki og stofnanir fengju vottunina fyrsta árið og segir Stefán Einar Stefánsson, fráfarandi formaður VR, stefna í að það náist.

„Ég hef sjálfur sagt að VR eigi að stefna að því að hundrað stærstu fyrirtæki landsins verði öll komin með þessa vottun í árslok 2014 og ég held að það sé raunhæft markmið ef allir leggjast á árarnar með okkur til að vinna á þessu óréttlæti," segir Stefán Einar.

Til að hljóta vottunina þurfa vinnustaðir að uppfylla ýmis skilyrði og sýna fram á að fólki sé ekki mismunað í launum með ómálefnalegum hætti. Þeir skuldbinda sig jafnframt til að sæta eftirliti í að minnsta kosti þrjú ár.

„Þetta er mikilvægt vegna þess að misrétti á ekki að líðast á vinnumarkaði frekar en annars staðar."

Það liggur beint við að spyrja Stefán hvort hann telji flest íslensk fyrirtæki ennþá hafa kynbundinn launamun.

„Ég er algjörlega handviss um að svo sé."

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Hagstofunnar sem birtar voru í gær, er launamunur kynjanna ennþá tæp 23% og sáralítið hefur breyst undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×