Innlent

Umferðaslysum fækkað verulega á 10 árum

Helga Arnardóttir skrifar
Umferð í Reykjavík.
Umferð í Reykjavík.
Umferðarslys hér á landi í fyrra hafa að meðaltali ekki verið færri síðustu tíu ár að því er fram kemur í nýútkominni skýrslu Umferðarstofu.  Banaslysum hefur fækkað um helming síðustu fimm ár og slösuðum í umferðinni fækkar umtalsvert milli ára.

Slysaskýrsla Umferðarstofu fyrir árið 2012 sem var kynnt fyrir fjölmiðlum í morgun telst um margt söguleg vegna mikils árangurs sem náðst hefur í umferðaröryggismálum. 

Níu manns létust í umferðarslysum hér á landi í fyrra sem er með því allra lægsta sem gerist í heiminum ef miðað er við höfðatölu. Síðastliðin fimm ár frá 2008-2012 hafa 58 látist í umferðarslysum á Íslandi en næstu fimm ár þar á undan 2003-2007 létust hundrað og ellefu með sama hætti.  Þetta þýðir engu  að banaslysum hefur fækkað um nær helming eða 48%.  Alvarlega slösuðum hefur fækkað um 34% á tveimur árum og þá eru mun færri slys meðal ungra ökumanna á aldrinum 17-20 ára. 

Í skýrslunni kemur fram að aldrei hafa eins fá börn slasast í umferðinni eins og árið 2012 ef miðað er við þann gagnagrunn  sem stuðst er við frá 1986. Það telst jafnframt sögulegt að ekkert banaslys varð í fyrra af völdum ölvunar en þess ber þó að geta að hlutfall ölvunaraksturs af heildarfjölda slysa er lítilsháttar hærra árið 2012 en meðaltal 10 ára á undan. Þá hafa aldrei færri gangandi vegfarendur slasast eða látist í umferðinni enárið  2012 miðað við fyrrnefndan gagnagrunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×