Innlent

Ráðherrar VG tilnefndu 5 af 6 í nýrri stjórn rammaáætlunar

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur skipað nýja verkefnisstjórn rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða. Fimm fulltrúar af sex eru samkvæmt tilnefningum ráðherra Vinstri grænna, en sjötti fulltrúinn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það sama gildir um jafnmarga varamenn.

Við meðferð rammáætlunar á Alþingi í vetur voru stjórnarflokkarnir gagnrýndir fyrir að víkja frá faglegri niðurstöðu og lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks til að rammáætlun yrði aftur vísað til verkefnisstjórnar og henni falið að flokka virkjunarkosti á ný.

Svandís Svavarsdóttir hefur nú skipað Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing sem formann nýrrar verkefnisstjórnar  en einnig Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor í stjórnina án tilnefningar. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra tilnefndi Helgu Barðadóttur sérfræðing og Ólaf Örn Haraldsson þjóðgarðsvörð og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra tilnefndi Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur sérfræðing. Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var Elín R. Líndal sveitarstjórnarfulltrúi tilnefnd.

Varamenn eru Ásdís Hlökk Theodórsdóttir skipulagsfræðingur, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Sigrún Helgadóttir líffræðingur, Eiríkur Þorláksson sérfræðingur og Guðjón Bragason sviðsstjóri. Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar er Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Í fyrri verkefnisstjórn voru tólf fulltrúar, og áttu meðal annars náttúruverndarsamtök og Samorka hvor sinn fulltrúa, en með lagabreytingu fyrir tveimur árum var fulltrúum fækkað niður í sex. Verkefnisstjórnin er skipuð til næstu fjögurra ára og er henni ætlað að vinna drög að rökstuddum tillögum til ráðherra um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×