Innlent

Kappræður úr Norðausturkjördæmi á Stöð 2 í kvöld

Oddvitar flokkanna í Norðausturkjördæmi takast á um kosningamálin í kappræðum á Stöð 2 í kvöld,  sem hefjast strax að loknum fréttum klukkan 18.55. Þetta er annar kjördæmaþátturinn af sex sem Stöð 2 sendir út fyrir þingkosningarnar en sá fyrsti var í gærkvöldi, - úr Suðvesturkjördæmi.

Þeir sex listar í Norðausturkjördæmi, sem kannanir sýna að líklegastir eru til að ná þingsætum, senda fulltrúa sína. Frá Framsóknarflokki mætir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, frá Sjálfstæðisflokki Kristján Þór Júlíusson, frá Samfylkingunni Kristján L. Möller, frá Vinstri grænum Steingrímur J. Sigfússon, frá Bjartri framtíð Brynhildur Pétursdóttir og frá Pírötum Aðalheiður Ámundadóttir.

Stóriðjuuppbygging á Bakka og jarðvarmavirkjanir í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum eru meðal þeirra verkefna í kjördæminu sem einna mest eru rædd í þjóðmálaumræðunni. Einnig hafa verið áberandi umræður um Vaðlaheiðargöng og fjárfestingaráform Kínverjans Nubo á Grímsstöðum, sem og niðurskurður heilbrigðisstofnana og löggæslu, og má gera ráð fyrir að þessi mál og fleiri, sem brenna á kjósendum Norðausturkjördæmis, beri á góma í þættinum í kvöld.

Þetta er eitt víðfeðmasta kjördæmis landsins, nær allt norður frá Grímsey og suður til Djúpavogs. Íbúar eru um 39 þúsund talsins og kjósendur um 29 þúsund. Stjórnendur umræðunnar verða Kristján Már Unnarsson og Ingveldur Geirsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×