Innlent

Mál aldraða sjúklingsins á Suðurnesjum ekkert einsdæmi

Jóhannes Stefánsson skrifar
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja Mynd/ Vísir
Mál áttræða mannsins sem var látinn bíða veikur fyrir utan Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gær á meðan vinur hans hringdi í Neyðarlínuna, er ekki einsdæmi. "Þetta voru ekki mistök af hálfu okkar starfsmanns. Við ætlum okkur að senda út upplýsingar um það fyrir eða eftir helgi hvernig þetta er," segir Elís Reynarsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar HSS um atvikið. Elís segist fyrir mistök hafa gefið fréttastofu Vísis rangar upplýsingar í gær þegar hann sagði að um mistök starfsmanns væri að ræða.

"Þegar búið er að skoða málið kemur í ljós að okkar starfsmaður fór algerlega eftir verklagsreglum. Í sjálfu sér þegar við förum að skoða þetta þá áttum við okkur ekki alveg á því af hverju hann kvartar vegna þess að hann fékk alveg þessa þjónustu. Það kom læknir og sinnti honum," segir Elís. Þá segir Elís það vera rétt að fólk geti þurft að bíða eftir að vera hleypt inn utan hefðbundins opnunartíma og þurfi að hringja í Neyðarlínuna til þess að geta komist inn.

Íbúar á Suðurnesjum hafa lýst yfir óánægju með þetta fyrirkomulag. Elís vildi ekki tjá sig um hvers vegna verklagið væri með þessum hætti, en sagði að HSS myndi senda út tilkynningu þar að lútandi á næstu dögum sem hann vonaðist til að myndi skýra málið betur.

Sjá frétt Vísis um málið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×