Innlent

Viggó Þór Þórisson sakfelldur fyrir stórfelld auðgunarbrot

Jóhannes Stefánsson skrifar
Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli Viggó Þórs Þórissonar þar sem hann var sakfelldur fyrir tilraun til fjársvika. Viggó var dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingar, en Hæstiréttur þyngdi refsingu héraðsdóms Reykjaness um hálft ár. Viggó var ákærður fyrir umboðssvik, en tilraun til fjársvika til vara.

Ákæruvaldið fékk ákúrur í málinu frá Hæstarétti. Héraðsdómur hafði sakfellt ákærða fyrir alla ákæruliði en Hæstiréttur sýknaði ákærða af einum ákæruliðnum vegna þess að dómurinn taldi að ákæruvaldinu hafi láðst að "greina hugsanlegar afleiðingar brotsins með almennum hætti" í ákærunni. Þannig hafi ekki verið hægt að færa fullar sönnur fyrir því að verknaðarlýsingin hefði verið eins og hún birtist í ákæru.

Gríðarlegar fjárhæðir í spilinu

Málið komst upp í kjölfar ábendingar JP Morgan banka í Englandi þess efnis að reynt hefði verið að nota skjöl merkt VSP, sem álitin væru vafasöm, í viðskiptum við JP Morgan.

Málavextir voru þeir að ákærði, sem var framkvæmdastjóri Verðbréfaþjónustu Sparisjóðanna (VSP) útbjó skjal með nafninu innlánsskírteini þar sem tilhæfulaust var staðhæft að viðskiptavinur VSP hefði á tilteknum innlánsreikningi 200.000.000,- bandaríkjadala (jafnvirði 23,2 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins) sem mætti greiða greiðsluþega eða löglegum framsalshöfum við framlagningu skírteinisins eftir 31. desember 2009 á aðalskrifstofu VSP.

Þá útbjó ákærði falsað skjal á ensku í nafni VSP með nafninu tryggingavörslusjóðir, dags. 17. október 2006, sem hann undirritaði. Ákærði lét viðgangast athugasemdalaust að í útboðslýsingu skuldabréfaútboðs bandarísks félags, dags. 18. október 2006, sem skráð var í kauphöll Ermasundseyja í október 2006, kæmi fram að skuldabréfaútboðið væri tryggt með 700.000.000,- bandaríkjadala (jafnvirði 81,5 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins) tryggingavörsluábyrgð á milli bandaríska félagsins og VSP. Falsaða skjalið var til grundvallar útboðslýsingunni. Til viðbótar útbjó ákærði þrjú fölsuð reikningsyfirlit til að greiða fyrir útboðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×