Innlent

Fór betur en á horfðist í saltsýruleka

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Slökkviliðsmenn á Laugarvatni og Selfossi voru kallaðir út vegna lekans.
Slökkviliðsmenn á Laugarvatni og Selfossi voru kallaðir út vegna lekans.
„Þetta fór eins vel og hægt var miðað við aðstæður,“ segir Sigurður Rafn Hilmarsson, framkvæmdastjóri heilsulindarinnar Fontana á Laugarvatni um saltsýruleka úr geymi í geymslukjallara hússins í gær.

Slökkviliðsmenn á Laugarvatni og Selfossi voru kallaðir út vegna lekans, og fóru þeir í eiturefnabúningum inn í geymsluna og núllstilltu sýruna með kalki.

„Þetta var rétt fyrir lokun og flestir farnir þegar starfsmaður á vakt varð var við þetta í reglubundnu eftirliti á mælum. Það sem hefur átt sér stað er að það hefur orðið tæring í einum lokanum sem varð til þess að lekinn myndaðist.“

Sigurður segir atburði gærkvöldsins ekki hafa nein áhrif á daglegan rekstur heilsulindarinnar.

„Það er allt opið eins og venjulega, og við erum búin að hringja í alla þá fagaðila sem þurfa að koma og taka þetta út. Svo verður skipt um búnaðinn og farið yfir þá verkferla sem við vinnum eftir, hvort þurfi að endurskoða þá eða bæta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×