Innlent

Varað við sterkum vindhviðum á Kjalarnesi

Varað er við sterkum vindhviðum á Kjalarnesi í dag en reiknað er með vindhviðum frá 30 til 35 metrar á sekúndu. Gert þó ráð fyrir því að vindurinn gangi niður síðdegi.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að skil með SA- hvassviðri og úrkomu fari norðaustur yfir landið í dag. Í byggð kemur til með að rigna, en til að byrja með má búast við snjókomu og síðar slyddu á fjallvegum áður en þar hlánar einnig víðast á endanum.

Færð og aðstæður:

Á Suður- og  Vesturlandi eru vegir að mestu greiðfærir.

Hálkublettir eru á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði sem og á Gemlufallsheiði.

Snjóþekja er frá Bjarnarfirði norður í Árneshrepp en aðrir vegir á Vestfjörðum að mestu greiðfærir. Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir nokkuð víða en á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum.  Dettifossvegur er ófær.

Hálka er á Vopnafjarðarheiði, Fagradal, Möðrudalsöræfum og Háreksstaðaleið en aðrir vegir á Austurlandi eru að mestu greiðfærir. Snjóþekja er á Breiðdalsheiði og ófært á Öxi. Greiðfært  er með Suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×