Innlent

Róbert Wessman skorar á stjórnvöld

Róbert Wessman er einn þeirra sem standa að síðunni.
Róbert Wessman er einn þeirra sem standa að síðunni.
„Eitt af brýnustu hagsmunamálum Íslendinga er að hefja nýja sókn til bættra lífskjara með fjölgun starfa, auknum kaupmætti  og meiri lífsgæði að leiðarljósi. Íslenskt atvinnulíf hefur verið læst í fjármagnshöft um nærri fimm ára skeið sem skýrir að stórum hluta þá stöðnun sem ríkt hefur hérlendis á þessum tíma,“ segir í skilaboðum til stjórnmálamanna sem hópur einstaklinga sendi frá sér í dag.

Í skilaboðunum segir að haftalæsing Íslands stafi af miklu leyti af aflandskrónum í eigu erlendra aðila, einkum svonefndra vogunarsjóða og bankastofnana, sem hafi ekki komist með þær úr landi. Þessar krónueignir séu oft í daglegu tali kallaðar „Snjóhengjan“. Ný vefsíða, www.snjohengjan.is, er komin í loftið þar sem þjóðinni gefst kostur á því að skora á stjórnmálamenn að setja lausn Snjóhengjuvandans í forgang að loknum kosningum.

„Við hvetjum alla Íslendinga til að taka þátt í áskorun til stjórnmálamanna um að  setja lausn Snjóhengjunnar í forgang. Við viljum hefja nýja sókn til bættra lífskjara og lausn Snjóhengjunnar er lykilforsenda í þeim efnum. Við erum í góðri samningsstöðu til að semja við eigendur þeirra 800 milljarða aflandskróna sem leita útgöngu og skorum á stjórnmálamenn að sýna framsýni og þor við lausn málsins," segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen. Hann er einn þeirra fjörutíu einstaklinga sem standa að síðunni.

Að baki vefsíðunni www.snjohengjan.is standa fjölmargir einstaklingar með ólíkan bakgrunn sem eiga það allir sameiginlegt að vilja stuðla að aukinni umræðu um lausn Snjóhengjunnar. Meðal stofnenda eru: Róbert Wessman forstjóri Alvogen, Jón Sigurðsson forstjóri Össurar, Helen Neely rekstrar- og fjármálastjóri, Björn Zoega forstjóri Landspítalans, Guðni Bergsson lögfræðingur, Steinn Jóhannsson skólameistari og María Bragadóttir heilsuhagfræðingur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×