Innlent

Gamla fólkið á Akureyri fær iPad

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Akureyri.
Akureyri. Mynd/ Pjetur.
Öldrunarheimilin á Akureyri hafa sett upp þráðlaust net og keypt spjaldtölvur á fyrir íbúa. Samhliða því hefur upplýsingamiðlun á heimasíðu öldrunarheimilanna og samfélagsmiðlum verið efld til mikilla muna. Markmiðið er að hvetja til aukinnar virkni íbúa með hjálp upplýsinga- og tölvutækninnar. Í fyrsta áfanga þessa verkefnis hefur spjaldtölvum og þráðlausu neti verið komið upp á tveimur af fimm heimilum.

Öldrunarheimili Akureyrar ákváðu í byrjun árs 2013 að setja velferðartækni sérstaklega á dagskrá, huga að nýjum möguleikum og setja af stað tilrauna- og þróunarverkefni innan heimilanna. Í tilkynningu frá Akureyri segir að rekja megi ákvörðunina til tillagna vinnuhóps um viðhorf til öldrunarþjónustunnar á Akureyri, Eden-hugmyndafræðinnar og ráðstefnu um velferðartækni.

Búið er að setja upp þráðlaust net á heimilunum tveimur og í almennu rými í Hlíð. Í dag voru svo afhentar 10 spjaldtölvur til afnota fyrir íbúa. Á næstu vikum verður lokið við uppsetningu á  upplýsingaskjáum fyrir viðburði og fréttir og sett upp Fésbókarsíða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×