Innlent

Dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Tuttugu ára gamall maður var dæmdur í gær í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára fyrir manndráp af gáleysi þegar hann ók á þrjár unglingsstúlkur á Siglufirði í nóvember árið 2011 undir áhrifum kannabisefna.

Stúlkurnar voru nýkomnar út úr skólabifreið þegar þær fóru yfir götu en þá kom maðurinn, sem var átján ára gamall þegar atvikið átti sér stað, og ók á þær. Ein þeirra lést nær samstundis, önnur stórslaðist á meðan sú þriðja slasaðist minna.

Pilturinn neitaði fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystri að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, en játaði þó að hafa reykt kannabisefni nokkrum dögum áður.

Sjálfur vildi pilturinn meina að þarna hefði verið um óhappatilviljun að ræða, en dimmt var úti auk þess sem stúlkurnar gengu fyrirvaralaust út á götu og í veg fyrir bílinn.

Í niðurstöðu dómsins segir aftur á móti að það sé niðurstaða dómarans að maðurinn hefði ekki hagað akstri sínum í samræmi við þær skyldur sem kveðið er á um í varúðarreglum umferðarlaganna. Að auki sá maðurinn nemendur koma út úr bílnum áður en hann ók upp að hlið skólabifreiðarinnar.

Ástæðan fyrir því að dómur mannsins er skilorðsbundinn er vegna ungs aldurs mannsins, en hann var átján ára gamall þegar óhappið átti sér stað. Þá þótti dómara einnig rétt að skilorðsbinda refsinguna þar sem maðurinn hefði átt við erfiðleika að stríða eftir slysið.

Þá vekur einnig athygli að dómurinn, eins og hann birtist á vefnum Dómstólar.is, er nafnlaus, það er, nafn sakborningsins kemur ekki fyrir í honum. Þegar Vísir hafði samband við Héraðsdóm Norðurlands eystra fengust þau svör að það hefði einnig verið gert vegna ungs aldurs mannsins þegar hann ók á stúlkurnar með þeim afleiðingum að ein þeirra lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×