Innlent

Helmingur þeirra sem er nauðgað 19 ára eða yngri

Hjörtur Hjartarson skrifar
Helmingur þolenda í nauðgunarmálum er 19 ára eða yngri á meðan meðalaldur geranda er 29 ár. Vinir og kunningjar eru gerendur í 37 prósenta tilvika. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um meðferð nauðgunarmála sem birt var í morgun.

Rannsókninni til grundvallar liggja allar tilkynntar nauðganir sem bárust lögregluembættum landsins árin 2008 og 2009. Að mestu leyti er stuðst við frásagnir brotaþola.

Lögregluembættin höfðu til meðferðar 189 mál á umdræddu tímabili. Í öllum tilvikum nema einu voru gerendur karlar eða drengir. Í öllum málum nema fjórum voru brotaþolar konur eða stúlkur. Sé litið til aldurs brotaþola kemur í ljós að um fjörutíu prósent þeirra eru yngri en 18 ára og því börn samkvæmt lögum.

Meðalaldurinn var 22 ár en aldursdreifingin var frá þriggja ára stúlkubarni til sextíu og eins árs gamallar konu. Aldursbil sakborninga var hinsvegar frá 12 ára upp í 68 ára. Flestir gerendur voru á aldrinum 19-29 ára. Ungur aldur brotaþola kom skýrsluhöfundum nokkuð á óvart.

Í um helmingi tilfella þekktust brotaþolar og sakborningar lítið eða ekkert. Stærsti einstaki hópur gerenda voru vinir eða kunningjar brotaþola eða í 37 prósent mála.

Af þeim 189 nauðgunum sem tilkynntar voru lögreglu var 88 málum vísað til ríkissaksóknara. 31 ákæra var gefin út af ríkissaksóknara og var sakfellt í 21 máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×