Innlent

Olli stórhættu með lasergeisla

Gissur Sigurðsson skrifar
Flugvöllurinn í Reykjavík.
Flugvöllurinn í Reykjavík.
Með þyrlu Landhelgisgæslunnar og tveimur lögreglubílum tókst að elta uppi og króa af ökumann, sem er grunaður um að hafa beint lasergeisla að flugumferð og flugturninum í Reykjavík á tólfta tímanum í gærkvöldi, en slíkt getur skapað stór hættu.

Þyrlan var að koma úr æfingaflugi þegar beiðni barst frá flugturninum um að áhöfn hennar reyndi að finna hvaðan geislinn kæmi. Brátt kom í ljós að geislinn virtist koma úr bíl, sem var niður við sjó í Sjálandshverfi í Garðabæ og vísuðu þyrlumennirnir lögreglunni á hann, en ökumaðurin ók þá af stað og hélt inn í Hafnarfjörð. Þyrlan elti hann og vísaði lögreglu á ferðir bílsins, sem leiddi til þess að hann var stöðvaður á Reykjavíkurveginum.

Í honum var 25 ára karlmaður, búsettur úti á landi, sem þegar var handtekinn. En við leit á honum og nákvæma leit í bílnum fannst ekkert lasertæki og hann neitaði staðfastlega sök, þannig að lögregla sleppti honum aftur að yfirheyrslu og leit lokinni. Eftir að hann yfirgaf vettvang í Sjálandshverfi bar ekki meira á ljósaganginum, og lögregla útilokar ekki að hann hafi kastað tækinu út úr bílnum á ferð, enda tækið lítið og handhelt.

Þung viðurlög og jafnvel fangelsisdómar geta legið við svona brotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×