Innlent

Fiskibátar fengu högg í skjálftanum

Gissur Sigurðsson skrifar
Skjálftinn varð rétt við Grímsey.
Skjálftinn varð rétt við Grímsey.
Mikið högg kom á nokkra fiskibáta, sem voru að veiðum austan við Grímsey þegar stóri skjálftinn varð þar aðfararnótt þriðjudags og fiskur virðist vera flúinn af svæðinu. Dregið hefur úr skjálftavirkninni í nótt.

Að sögn Aðalsteins Júlíussonar á Háey ÞH kom fyrst mikið högg á bátinn og svo titringur stafna á milli, líkast því að hann hefði fengið eitthvað í skrúfuna, eða siglt á eitthvað, sem ekki gat þó verið þar sem báturinn var ekki á siglingu þá stundina. Skipverjar hafi hinsvegar fljótlega áttað sig á hvað gerðist. Línubáturinn Karólína ÞH , sem var enn nær upptökunum, lyftist upp og titraði, þannig að áhöfnin hætti þegar línudrættinum á meðan verið var að ganga úr skugga um hvað hefði gerst, en engan sakaði. Fram að þessu hafði verið all góður afli þar sem menn voru að fá ýsu, þorsk, karfa og jafnvel hlýra, en eftir þetta datt veiðin alveg niður þannig að fiskarnir virðast hafa tekið duglega til sporðanna, og flúið í ofboði af svæðinu.

Mikil skjálftavirkni hélt áfram fram á kvöld á báðum upptakasvæðunum austur- og suðaustur af Eynni. Nokkrir skjálftar mældust á bilinu þrjú til fjögur stig. Að sögn jarðvísindamanna, sem fylgjast grannt með framvindunni, fór að draga úr virkninni upp úr miðnætti og núna undir hádegi var orðið nokkuð rólelgt á svæðinu, þótt of snemmt væri að spá um endalok hrinunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×