Innlent

Fjöldi nýrra mála hjá Barnahúsi gæti farið í 500

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Fjöldi nýrra mála hjá Barnahúsi hefur aukist gífurlega og ef fram fer sem horfir verða þau fimmhundruð á árinu, eða tvöfalt fleiri en í fyrra.

Undirnefnd allsherjar og menntamálanefndar Alþingis kynnti í gær tillögur um úrræði til að bregðast við gífurlegri fjölgun á málum vegna kynferðisbrota gegn börnum en hundrað og eitt slíkt mál barst lögreglu á fyrstu þremur mánuðum þessa árs þar af fjörutíu í janúar sem er fjórföld aukning miðað við mánaðarlegt meðaltal síðasta árs.

Á meðal þess sem nefndin leggur til að stjórnvöld geri er að efla Barnahús með auknum fjárveitingum en þangað leita sífellt fleiri börn. „Þetta hafa verið á bilinu 270-290 mál á ári en það gæti stefnt í að verða nær 500 mál ef þróunin verður áfram sú sem við höfum séð fram að þessu," segir Skúli Helgason, varaformaður allsherjar og menntamálanefndar. Auk þess að auka fjárveitingar leggur nefndin til að hugað verði að því að bjóða sérstaka þjónustu í Barnahúsi fyrir börn á aldrinum 15 til 17 ára og að hvatt verði til þess að dómarar um allt land nýti þjónustu þess við skýrslutöku barna sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum.

„Sem betur fer eru dómarar víðast hvar á landinu að nota þessa þjónustu varðandi skýrslutöku fyrir börnin en það hefur lítið verið gert af dómurum við Héraðsdóm Reykjavíkur og við hvetjum til þess að þeir nýti sér sömuleiðis þessa þjónustu. Við hljótum að gera þá kröfu að börn um allt land, hvort sem þau búa á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni fái bestu þjónustu sem í boði er þegar kemur að því að vinna úr þessari hörmulegu reynslu. En af hverju er þetta ekki jafnvel nýtt á Reykjavíkursvæðinu eins og annarsstaðar? Það er rétt að beina þeirri spurningu til dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur en þau sjónarmið hafa heyrst þaðan að þeir telji sig vera með þjónustu sem sé fullnægjandi við þessar aðstæður en um það eru deildar meiningar," segir Skúli Helgason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×