Innlent

Voru kjarnavopn á Keflavíkurflugvelli? - skjöl WikiLeaks varpa ljósi á málið

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Frá Miðnesheiði.
Frá Miðnesheiði.
Það kennir ýmissa grasa í nýbirtum gögnum uppljóstrunarsamtakanna WikiLeaks. Hér er um að ræða 1.7 milljónir skjala út utanríkis- og leyniþjónustu Bandaríkjanna á árunum 1973 til 1975.

Skjölin varpa ljósi á starfsemi Bandaríkjanna víða um land, þar á meðal í Suður-Ameríku og á Spáni. Þar er einnig að finna skjöl og póstsendingar sem varpa ljósi á starfsemi Bandaríkjanna hér á Íslandi.

Flest skjölin taka til rekstur, viðhalds og starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Varnarliðið kom hingað til lands eftir tilkomu tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna árið 1951. Varnarliðið hætti síðan starfsemi hér á landi í lok september árið 2006.



Julian Assange, stofnandi WikiLeaks.Mynd/ Getty.
Í gögnum WikiLeaks er meðal annars að finna athugasemdir Harðar Helgasonar heitins, fyrrverandi skrifstofustjóra utanríkisráðuneytisins. Árið 1975 höfðu sænski fjölmiðlar greint frá því að kjarnavopn væru geymd á Keflavíkurflugvelli. Hörður leitaði svara hjá stjórnendum varnarliðsins.

Ekki hafði verið fjallað um málið í íslenskum fjölmiðlum og því var Herði ráðlagt að einbeita sér að öðru. „Helgason var sammála," segir í skeyti frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík sem dagsett er 26. júní árið 1975. „Engu að síður benti hann á að það væri aðeins tímaspursmál hvenær kommúnistatímaritið Þjóðviljinn myndi komast á snoðirnar um málið."

En umræðan fór sannarlega á flug hér á landi. Þann 26. janúar árið 1976 fór Páll Tryggvason, fyrrverandi sendiherra og formaður varnarmálanefndar, fram á að hópur íslenskra vísindamanna fengi leyfi til að rannsaka möguleg ummerki kjarnavopna á flugvellinum.

Í skeytinu kemur fram að Páll hafi bent á að málið hafi komist í hámæli á Íslandi. „Hann (Páll) ítrekaði að rannsókn íslenskra vísindamanna gæti leitt til þess að færri greinar og fréttir yrðu skrifaðar um málið."

Tveimur dögum seinna segir í skeyti frá sendiráðinu að teymi íslenskra vísindamanna gæti ekki fært sönnur á hvort að kjarnavopn hefðu farið um flugvöllinn.

Sama dag var málið rætt utan dagskrár á Alþingi. Þar lét Einar Ágústsson, þáverandi utanríkisráðherra, þessi orð falla um málið: „Hér hafa aldrei verið geymd kjarnorkuvopn, hvorki fyrr né síðar." Þá sagðist Einar ekki vita til þess að sérstök skrá væri til um hvar Bandaríkjamenn geyma kjarnorkuvopn.

Einar Ágústsson ásamt Ólafi Jóhannessyni ráðherra og fleirum. Mynd/ GVA.
Helgi Pétursson, sem var blaðamaður á Dagblaðinu á þessum tíma, segir að tónninn í þessar umræðu á áttunda áratugnum hafi verið sá að starfsemi Bandaríkjahers hér á landi kæmu Íslendingum ekki við.

„Menn voru alveg klárir á því að þeir myndu ekki hafa samband við okkur þegar eitthvað var að gerast," segir Helgi. „Þetta var tónninn, þeir gátu gert ýmsa hluti sem við vissum ekkert um og gátum ekkert gert í."

Það virðist því enn vera með öllu óvíst hvort að kjarnavopn hafi verið á Keflavíkurflugvelli þegar Kalda stríð stóð sem hæst.

Í skeyti sem sendiráð Bandaríkjanna í Stokkhólmi ritaði til Washington er farið hörðum orðum um grein blaðamannsins Frank Barnaby hjá fréttablaðinu Ambio.

Þar vísar Barnaby í rannsóknir Friðarrannsóknarstöð Svíþjóðar sem staðhæfði að kjarnavopn hefðu sannarlega verið staðsett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×