Innlent

Dómari hefur hafnað beiðni Gests og Ragnars

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur hafnað beiðni Gests Jónssonar og Ragnars Hall um að segja sig frá al-Thani málinu.

Þeir Gestur og Ragnar, sem eru verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, héldu blaðamannafund í dag þar sem þeir tilkynntu að þeir myndu segja sig frá málinu. Gestur Jónsson staðfesti í samtali við Vísi að málaumleitan þeirra hefði verið hafnað. Hann segir ekki ljóst hver næstu skref í stöðunni verða.

Gestur sagði í samtali við Vísi að dómari hefði hafnað málaumleitaninni með ákvörðuninni. Nú geta þeir Gestur og Ragnar Hall krafist þess að dómari úrskurði formlega um málið. Gestur segir aftur á móti óvist hvort sá úrskurður yrði kæranlegur til Hæstaréttar né heldur hver næstu skref verjendanna í málinu yrðu.

Al-Thani málið snýst um ákæru á hendur Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann, Ólaf Ólafsson, einn aðaleiganda bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra bankans í Lúxemborg. Þeir eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í viðskiptum með 5% hlut í Kaupþingi rétt fyrir hrun.

Gestur, sem er verjandi Sigurðar, og Ragnar, sem er verjandi Ólafs, tilkynnti í dag að þeir hygðust segja sig frá málinu vegna þess að reglur um málsmeðferð hefðu verið þverbrotnar. Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, og Karl Axelsson, verjandi Magnúsar, sögðu sig aftur á móti ekki frá málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×