Innlent

Ánægður með afgreiðslu náttúrufrumvarps

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi verið mikill sigur að Alþingi hafi náð afgreiða frumvarp um náttúruvernd fyrir þinglok. Gildistöku laganna var þó frestað um þrjá mánuði til að mæta gagnrýni þingmanna sjálfstæðis- og framsóknarflokks sem sátu hjá í atkvæðagreiðslu um málið.

Markmið frumvarpsins var að endurbæta lagaumhverfi um náttúrvernd á Íslandi meðal annars það sem snýr að vernd og nýtingu auðlinda og umgengni. Frumvarpið var umdeilt. Um sextíu umsagnir bárust umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sem hafði frumvarpið til umfjöllunar og rúmlega sextán þúsund skráðu nafn sitt á undirskriftalista þar sem frumvarpinu var mótmælt.

Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu til að mæta þessari gagnrýni og var það síðan samþykkt á Alþingi - rétt fyrir þinglok. Framsóknar og sjálfstæðismenn sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. Gildistöku laganna var frestað um þrjá mánuði og eiga lögin að taka gildi 1. apríl á næsta ári.

„Það var í raun og veru mikill sigur, mikill árangur að ná þessu frumvarpi í gegn," segir Mörður, og bætir því við að ekki skipti öllu máli hvort það taki gildi um næstu mánaðarmót eða síðar. „Það tekur tíma að undirbúa gildistöku svona frumvarps og það á eftir að standa í tíu til tuttugu ár."

Mörður óttast ekki að sjálfstæðis- eða framsóknarmenn muni einfaldlega breyta lögunum ef þeir komast í ríkisstjórn eftir kosningar.

„Þeir vildu láta fresta þessu og fengu fram þriggja mánaða frestun. Það er þá þeirra verkefni í kosningabaráttunni að segja okkur hvers vegna það er og hverju þeir vilja láta breyta ef þeir vilja láta breyta einhverju, en efnisrök þeirra hef ég eiginlega ekki heyrt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×