Innlent

Með jákvæðnina að leiðarljósi

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Íbúar á Bifröst voru slegnir þegar Davíð Olgeirsson söngvari og markaðsstjóri Háskólans í þorpinu varð fyrir alvarlegu slysi á fótboltaæfingu um miðjan síðasta mánuð. Útlit er fyrir að hann þurfi að vera frá vinnu og í stífri endurhæfingu fram á næsta ár en jákvæðni hans og eiginkonunnar hefur snert alla í þessu litla samfélagi sem nú vill gefa hjónunum eitthvað til baka.

Davíð var í marki á fótboltaæfingu í Reykjavík fyrir um einum og hálfum mánuði þegar hann fékk bolta í höfuðið og hneig niður en við höggið sprakk blóðgúlpur í höfði hans sem olli heilablæðingu.

„Fyrst þegar ég hitti hann þá var hann ótrúlega fjarrænn," segir Tinna Jóhannsdóttir, eiginkona Davíðs, og segir hún hann í raun hafa misst allan orðaforða til að byrja með. „Hann gat sagt já og nei, en það var svona það eina sem hann hafði tök á að segja fyrstu dagana. Hann gat sig hvergi hreyft hægra megin, missti allan máttinn í allri hægri hliðinni."

Davíð segir að hann hafi fæðst með svokallaða vatnsblöðru í höfðinu, sem er tiltölulega algengt, en í hans tilfelli hafði slagæðagúlpur myndast í kringum hana.

„Þetta var lán í óláni því ég var við hliðina á Borgarspítalanum þegar þetta gerðist. Þetta er í eina skiptið í vikunni sem maður er við hliðina á Borgarspítalanum," segir Davíð, en hann hefur nú verið í endurhæfingu á Grensáss ásamt dalegri talþjálfun en hann er að eigin sögn allur að koma til.

„Mér líður bara vel. Ég hef bara sýnt jákvæðni gagnvart þessu."

Og jákvæðnin sem Davíð og Tinna hafa haft að leiðarljós hefur snert íbúana sem ætla að efna til styrktarkvölds þann 9. apríl á Bifröst. Fjölmargir þekktir listamenn koma fram og rennur ágóðinn óskiptur til fjölskyldunnar. Davíð verður næstu mánuði í endurhæfingu og Tinna, sem er nemi, verður því fyrirvinna heimilisins.

Hér má finna síðu styrktarkvöldsins á Facebook. Þeir sem ekki komast en vilja leggja Davíð og fjölskyldu hans lið geta lagt inn á styrktarreikning 1177-15-200198. Kt. 010587-3449




Fleiri fréttir

Sjá meira


×